13 febrúar 2006

Er barnið mitt nógu bráðþroska??

Já það er sérkennilegt með okkur foreldrana að auðvitað verðum við svolítið upptekin af því hvort börnin okkar séu örugglega ekki að fylgja jafnöldrum sínum í þroska. Þetta byrjar ótrúlega snemma og yngri dóttir mín sem er aðeins þriggja mánaða gömul er borin saman við önnur börn og rætt um hvort hún fylgi eftir með augunum, grípi í hluti með höndunum, o.sv.fr.
Þessi samanburður verður óneitanlega til þess að maður er í sífellu að reyna að sannfæra sig um að mitt barn sé OK. Svo í dag kom að því að upp kom eitt atriði sem skilur eldri dóttur mína frá öðrum í hennar árgangi............Hún er (var) ennþá með hjálpardekk á hjólinu sínu en enginn í bekknum hennar er með hjálpardekk og því dreif ég mig á stað í dag og reif hjálpardekkin undan og við fórum að Síðuskóla til að æfa hana í að hjóla án hjálpardekkja. Þegar þangað kom hitti hún vinkonu sína úr öðrum bekk sem spurði með fyrirlitningartón : "Finnst þér erfitt að hjóla?" Sara Rut svaraði að bragði: Nei, nei, ég bara er að læra að hjóla án þess að vera með hjálpardekk. Þá sagði hin stelpan með stolti: "Ég er að fá gírahjól" Sara Rut snéri sér að mér og sagðist vilja fara leika sér og hætta að hjóla í bili. Ég fann að hún var lítið hrifin af því að þessi stelpa sæi til hennar svo ég leyfði henni að fara að leika. Skömmu seinna hringdi gsm sími og ég snéri mér við og sá þá hvar stelpan úr 2. BEKK tók upp gemsann og svaraði.

Ég leiddi gíralausa hjól dóttur minnar í burtu og hugsaði sem svo að líklega væri bara gott að leyfa henni að vera barn aðeins lengur. Því annars gæti ég misst sjónar af raunveruleikanum ef ég færi að taka þátt í eltingaleik samanburðarins. Ég segi því: "Verndum bernskuna!"

3 Comments:

At 14/2/06 18:52, Anonymous Nafnlaus said...

Frábær pistill Jói. Ég hef einmitt hugsað svolítið mikið um þetta. Ég er að kenna krökkum sem verða 10 ára á árinu og stundum finnst mér meira en nóg um hvað sumir ætla að taka unglingsárin snemma - sérstaklega stelpurnar. Hvernig stendur eiginlega á því að börn eru að flýta sér að verða fullorðin? Ég bara spyr...

Kveðja, Sara

 
At 15/2/06 09:42, Anonymous Nafnlaus said...

Fínn pistill Jóhann. Það verður sífellt meiri áskorun að taka ekki þátt í kapphlaupinu. Ekki held ég að það séu börnin sem eru að flýta sér. Er það ekki fullorðna fólkið sem býr til þrýstinginn? Hvernig stöndum við okkur í því að þola samanburðinn við náungan? Við berum nefnilega ekki bara börnin okkar saman við börn annarra heldur einnig okkur sjálf saman við aðra fullorðna. Er það ekki þar sem þetta byrjar allt saman?

Kveðja, allimar

 
At 31/7/06 16:21, Anonymous Nafnlaus said...

Frábær pistill Jóhann! Ég verð að setja síðuna þína í Favorites ef þú skrifar alltaf svona áhugaverðar pælingar.
Gaman að rekast svona óvænt á síðuna þína:)

Kveðja
Hulda Dröfn "Herkona"

 

Skrifa ummæli

<< Home