08 ágúst 2006

Ekkert er endanlegt

Ég velti því fyrir mér hvort til sé eitthvað sem er endanlegt. Það væri óskandi að til væri loforð eða fasti sem hægt væri að ganga út frá að væri endanlegur. En því miður held ég að flest það sem við teljum vera nokkuð pottþétt geti stundum reynst vera brigðult og aðrir hlutir sem við alls ekki treystum reynast á stundum vel. En þó svo að hlutum sé svo farið þá stenst engu að síður ekki fullyrðing mín hér að ofan um að 'ekkert sé endanlegt' því litlu þarf að bæta við svo 'ekkert' sé orðið að einhverju og þá er það ekki lengur endanlegt heldur hefur það tekið breytingum og sannar þá um leið kannski hugleiðingar mínar um breytileika allra hluta. Þannig hafa eflaust margir haldið að ég væri 'endanlega' hættur að blogga en í kvöld ákvað ég að skrifa nokkrar línur. Ekki veit ég hvort að sú ákvörðun mín um að blogga sé endanleg enda verð ég að setja punktinn einhversstaðar og þegar ég hef lokið við þessa færslu er ekkert rökrétt samhengi sem gefur fyrirheit um framhald eða ekki. Það mun tíminn leiða í ljós ef hann þá stöðvast ekki endanlega.

13 febrúar 2006

Er barnið mitt nógu bráðþroska??

Já það er sérkennilegt með okkur foreldrana að auðvitað verðum við svolítið upptekin af því hvort börnin okkar séu örugglega ekki að fylgja jafnöldrum sínum í þroska. Þetta byrjar ótrúlega snemma og yngri dóttir mín sem er aðeins þriggja mánaða gömul er borin saman við önnur börn og rætt um hvort hún fylgi eftir með augunum, grípi í hluti með höndunum, o.sv.fr.
Þessi samanburður verður óneitanlega til þess að maður er í sífellu að reyna að sannfæra sig um að mitt barn sé OK. Svo í dag kom að því að upp kom eitt atriði sem skilur eldri dóttur mína frá öðrum í hennar árgangi............Hún er (var) ennþá með hjálpardekk á hjólinu sínu en enginn í bekknum hennar er með hjálpardekk og því dreif ég mig á stað í dag og reif hjálpardekkin undan og við fórum að Síðuskóla til að æfa hana í að hjóla án hjálpardekkja. Þegar þangað kom hitti hún vinkonu sína úr öðrum bekk sem spurði með fyrirlitningartón : "Finnst þér erfitt að hjóla?" Sara Rut svaraði að bragði: Nei, nei, ég bara er að læra að hjóla án þess að vera með hjálpardekk. Þá sagði hin stelpan með stolti: "Ég er að fá gírahjól" Sara Rut snéri sér að mér og sagðist vilja fara leika sér og hætta að hjóla í bili. Ég fann að hún var lítið hrifin af því að þessi stelpa sæi til hennar svo ég leyfði henni að fara að leika. Skömmu seinna hringdi gsm sími og ég snéri mér við og sá þá hvar stelpan úr 2. BEKK tók upp gemsann og svaraði.

Ég leiddi gíralausa hjól dóttur minnar í burtu og hugsaði sem svo að líklega væri bara gott að leyfa henni að vera barn aðeins lengur. Því annars gæti ég misst sjónar af raunveruleikanum ef ég færi að taka þátt í eltingaleik samanburðarins. Ég segi því: "Verndum bernskuna!"

08 febrúar 2006

Nýtt blogg!

Jæja gott fólk. Það kemur ekki til af góðu en ég er kominn með nýtt blogg. Því miður lenti ég í þeim leiðindum með eldra bloggið mitt að einhverskonar ormur fór að setja inn komment á eldri dagbókarskrif og vísa í miður áhugaverðar vefsíður. Ég tók eftir þessu vegna þess að umferðin um síðuna mína jókst til muna um síðustu mánaðarmót og þegar ég fór að skoða málið betur kom þetta í ljós. Það er reyndar einkennilegt að það er mun auðveldara að stofna bloggsíðu á blog.central heldur en að eyða henni út. Og ég hef lesið á umræðuþræði þeirra innlegg frá nokkrum sem eru að leita ráða við því hvernig sé hægt að eyða út bloggi og það er fátt um svör. Eina sem ég fann var að ég gat sett inn vísun á forsíðuna í síðu sem ekki er til og þess vegna kemur melding um að bloggið mitt sé ekki til lengur. En ég er sem sagt fluttur yfir til blogspot og er bara nokkuð sáttur við útlitið en ég á eftir að setja inn meira hér til hægri á síðunni.